Eineltisáætlun
Markmið eineltisáætlunar Hólabæjar er að skapa starfsmönnum öruggt og gott starfsumhverfi. Allir starfsmenn eiga rétt á því að komið sé fram við þá af virðingu og að þeir sæti ekki kynferðislegri áreitni, einelti eða öðru ofbeldi. Farið er eftir eineltisáætlun Reykhólahrepps er finna má á heimasíðu hreppsins.
Einelti er endurtekin neikvæð eða illkvittnisleg hegðun eins eða fleiri einstaklinga sem beinist gegn ákveðnum einstaklingi eða hópi sem á erfitt með að verja sig. Ekki er um að ræða einangraðan atburð, heldur samfellt ferli atburða sem nær yfir tiltekið tímabil. Þolandinn upplifir kerfisbundna hegðun af hálfu gerenda sem er til þess fallin að niðurlægja, móðga, gera lítið úr, særa, mismuna eða ógna þolandanum.
Starfsmaður sem verður fyrir einelti, eða starfsmaður sem verður vitni að einelti, skal snúa sér hið fyrsta til næsta yfirmanns og tilkynna um atvikið þar sem erfiðara getur reynst að leysa málið eftir því sem lengri tími líður frá því að áreitni hófst. Starfsmaður á einnig kost á því að snúa sér til trúnaðarmanns á vinnustaðnum og það er gjarnan eina leiðin ef gerandi er yfirmaður þolandans.
Skýrar starfsreglur og vel afmörkuð ábyrgðarsvið eru mikilvægur liður í því að fyrirbyggja einelti á vinnustað. Allir starfsmenn vinnustaðar eru samábyrgir um að móta jákvætt starfsumhverfi og góðan vinnuanda, sýna hverjum öðrum stuðning og samstöðu.
Forvarnir eru í eðli sínu víðtækar og ná til flestra þátta í daglegu lífi okkar. Forvarnir eiga að spanna allt lífsskeið fólks og hafa velferð og farsæld íbúanna að leiðarljósi. Jafnrétti og fordómaleysi þarf að einkenna forvarnir. Sýnt hefur verið fram á margvíslegan ávinning útivistar, íþrótta og tómstunda með tilliti til lýðheilsu. Tryggja þarf að allir geti notið þess að ástunda heilbrigt líferni án tillits til efnahags, fötlunar, aldurs eða kynferðis. Leggja þarf áherslu á fræðslu um vímuvarnir og að upplýsingar um úrræði séu aðgengilegar. Bjóða þarf foreldrum upp á fræðslu og stuðning þannig að þeir eflist í uppeldishlutverkinu. Foreldrar eru og verða sterkustu fyrirmyndirnar. Þeir þurfa að setja börnum skýran ramma og fara eftir lögum og reglum. Þá þurfa foreldrar og allir þeir sem koma að uppeldi barna að vera í góðri samvinnu.
Fyrirmyndir finnast einnig í samfélaginu, utan heimilis. Samfélagið þarf að vera meðvitað um ábyrgð sína, að við gerum öll gagn í forvörnum. Þeir sem eldri eru þurfa að vera þeim yngri fyrirmyndir í einu og öllu og senda skýr skilaboð. Við berum öll ábyrgð.
Verklagsreglur um tilkynningaskyldu starfsmanna frístundar, félagsmiðstöðvar, leik- og grunnskóla Reykhólahrepps til barnaverndarnefnda
Verklagsreglurnar varða börn upp að 18 ára aldri og ná því til allra starfsmanna leik- og grunnskóla, frístundastarfs og félagsmiðstöðvar Reykhólahrepps. Markmið barnaverndar er að tryggja að börn sem búa við óviðunandi aðstæður eða börn sem stofna heilsu sinni og þroska í hættu fái nauðsynlega aðstoð. Í því felst m.a. skylda til að kanna aðstæður barna þegar grunur leikur á að þau búi við ofangreindar aðstæður, veita nauðsynlegan stuðning og beita úrræðum til verndar börnunum þegar við á. Hagsmunir barna eiga að vera leiðarljós í öllu starfi barnaverndarnefnda og ætíð ber að leita þeirra lausna sem börnum er fyrir bestu.
"Hverjum þeim sem stöðu sinnar og starfa vegna hefur afskipti af málefnum barna og verður í starfi sínu var við að barn búi við óviðunandi uppeldisskilyrði, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða að barn stofni heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu er skylt að gera barnaverndarnefnd viðvart. Sérstaklega er leikskólastjórum, leikskólakennurum, dagmæðrum, skólastjórum, kennurum, prestum, læknum, tannlæknum, ljósmæðrum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum, félagsráðgjöfum, þroskaþjálfum og þeim sem hafa með höndum félagslega þjónustu eða ráðgjöf skylt að fylgjast með hegðun, uppeldi og aðbúnaði barna eftir því sem við verður komið og gera barnaverndarnefnd viðvart ef ætla má að aðstæður barns séu með þeim hætti sem lýst er í 1. mgr. Tilkynningarskylda samkvæmt þessari grein gengur framar ákvæðum laga eða siðareglum um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta" (Barnaverndarlög nr. 80/2002 17. gr)
Með þessum verklagsreglum er gert ráð fyrir að starfsmenn leik-, grunn- og framhaldsskóla meti hvort ástand, líðan eða umönnun barns sé þannig háttað að tilkynna eigi um það til barnaverndarnefndar þar sem barnið býr. Tilkynna skal um grun, ekki aðeins staðfestar sannanir. Það er síðan barnaverndarnefnd og/eða starfsmenn hennar sem meta hvort grunur sé nægilega rökstuddur og taka ákvörðun um frekari könnun í framhaldi af því.
Verklagsreglurnar má finna hér; tilkynningaskylda starfsmanna - barnavernd.pdf
Rýmingaráætlun skólans hangir upp á vegg víðsvegar í leikskólanum og er starfsfólk hvatt til að kynna sér áætlunina.
Viðbrögð við eldsvoða
- ef eldur brýst út þá skal nærstaddur strax reyna að ráða niðurlögum hans með brunavarnarbúnaði skólans
- tilkynna skal strax og mögulegt er, ef elds verður vart þó um lítinn eld sé að ræða (ræsið brunakerfið)
- þurfi að fara út í gegnum hita á reyk, ber að fara með gólfum, þ.e. skríða
- sum börn forðast hættuástand með því að fela sig. Þess vegna þarf að leita gaumgæfulega að þeim, á öllum hugsanlegum stöðum.
Áfallaáætlun
Áfallaáætlun er unnin af leikskólastjóra í samráði við starfsfólk og utanað komandi aðila þegar skipuleggja þarf áfallahjálp barna og starfsfólks Hólabæjar, að teknu tilliti til aðstæðna hverju sinni þegar viðbrögð við áföllum eru ákveðin.
Nokkur dæmi um atvik sem valda áfalli
- dauðsföll
- langvarandi og alvarleg veikindi
- slys og afleiðingar þeirra
- félagslegar aðstæður sem leiða til aukins álags á heimili barns s.s. skilnaður, flutningar, vímuefni, atvinnuleysi, ofbeldi og misnotkun.
Viðbrögð við áföllum
- leikskólastjóri leitar staðfestingar á andláti, slysi, veikindum eða örðum ástæðum
- áfallaráð kallað saman þegar það á við
- starfsmönnum, foreldrum og börnum sagt frá atburðinum
- leikskólastjóri sér um að upplýsingar berist til heimila
- hlúð er að börnum og starfsfólki leikskólans eftir atvikum.
Þegar áfall verður í leikskólanum sem tengist barni, fjölskyldu þess eða starfsmanni og fjölskyldu hans er mikilvægt að öll skilaboð berist strax til leikskólastjóra eða staðgengils hans. Leikskólastjóri eða staðgengill hans kallar saman áfallaráð ef þurfa þykir og skipuleggur með hvaða hætti skuli brugðist við og stjórnar aðgerðum.
Helstu aðgerðir áfallaráðs við áföllum
- að leita til prests, sálfræðings eða annarra sérfræðinga og stuðningsaðila sem þurfa að koma inn í leiksólann til aðstoðar
- meta þarf á hvaða hátt skuli brugðist við með því að safna upplýsingum sem fengnar voru frá fyrstu eða ábyggilegum leiðum
- miðla upplýsingum, útdeila verkefnum og halda utan um þá vinnu.
Leikskólastjóri er alltaf eini tengiliðurinn við fjölmiðla eða aðila utan skólans ef þeir leita eftir upplýsingum um áföll sem varða börn, fjölskyldur þeirra eða starfsfólk.
Áætlun um hvað skuli gera ef slys verður í leikskólanum
- beitið fyrstu hjálp og látið hringja á sjúkrabíl ef um alvarlegt slys er að ræða
- yfirgefið ekki þann slasaða, sendið heldur eftir aðstoð
- reynið að hlúa að hinum slasaða eftir því sem hægt er
- verið yfirveguð og bregðast fumlaust og örugglega við aðstæðum
- ef farið er með barn til læknis ber að hringja í foreldra/forráðamann og látið vita
- Reykhólahreppur greiðir fyrir fyrstu heimsókn á slysadeild/hjá lækni.