Karellen

Upphaf leikskólagöngu

Við upphaf leikskólagöngu fá foreldrar/forsjáraðilar upplýsingar hvað varða leikskólastarfið, svo sem skólanámskrá, starfsáætlun, sérfræðiþjónustu og stoðkerfi leikskóla. Á aðlögunartíma veita foreldrar/forsjáraðilar upplýsingar um barnið, aðstæður þess, reynslu og áhugasvið. Upplýsingar um barnið eru trúnaðarmál. Í upphafi leikskólagöngu barns fær það góðan tíma til að aðlagast leikskólanum, umhverfi hans og starfsfólki. Foreldrar eru mikilvægir samstarfsaðilar leikskólans og er mikilvægt að koma þeim skilaboðum á framfæri við upphaf leikskólagöngu barnsins.

Aðlögun í leikskóla

Skömmu áður en leikskólaganga barnsins hefst fá foreldrar/forráðamenn tölvupóst um boð í

móttökusamtal í leikskólann. Móttökusamtal þarf alltaf að fara fram áður en aðlögun getur hafist. Í móttökusamtali er mælst til þess að foreldrar/forráðamenn mæti án barna. Vinnureglur leikskólans eru þær að ef um annað mál en íslensku ræðir þá fær leikskólinn aðstoð hjá túlki til þess að koma öllum upplýsingum vel og greinilega til skila. Starfsfólk gengur úr skugga um hvort nauðsynlegt sé að nota þjónustu túlka í samtölum. Móttökusamtalið fer þannig fram að starfsmaður fyllir út skjal með spurningum til foreldra/forráðamanna. Þar eru spurningar um barnið í brennidepli og leitast er við að kynnast barninu og fjölskyldu þess sem best áður en aðlögun hefst. Í samtalinu er einnig farið yfir það hver lykilpersóna fjölskyldunnar verður í aðlögunarferlinu. Lykilpersóna er ákveðinn starfsmaður sem verður tengiliður fjölskyldunnar á meðan á aðlögun stendur. Einnig eru foreldrar/forráðamenn spurðir hver muni vera til staðar meðan á aðlögun stendur og það er m.a. til þess að athuga hvort þurfi að notast við túlkaþjónustu í aðlögun. Foreldrar/forráðamenn eru þá beðnir um að láta vita ef eitthvað breytist á síðustu stundu varðandi hver kemur með barninu fyrstu dagana. Deildarstjóri sendir bréf um aðlögunarferlið til foreldra/forráðamanna í tölvupósti stuttu áður en aðlögun hefst. Nánar um aðlögun má lesa í árlegri starfsáætlun skólans þar sem má finna uppfærðar tímasetningar.

© 2016 - 2024 Karellen